ALMENN ÞJÓNUSTA

ALMENN ÞJÓNUSTA

Tannsteinn

Allar manneskjur mynda tannstein, þó í mismunandi mæli og fer það að mestu eftir munnumhirðu og efnasamsetningu munnvants hvers og eins. Bakteríur sem ekki hafa verið hreinsaðar af tönnunum umbreytast í tannstein með aðstoð kalks frá munnvatninu. 


Tannsteinn situr oftast á framtannasvæði neðri góms og við jaxla í efri góm, þar sem munnvatnskirtlar eru staðsettir undir tungunni og í sitthvorri kinninni. Því betri munnumhirða, því minni tannsteinn.


Til þess að vinna gegn myndun tannsteins er gott að drekka vatn og skola munninn eftir máltíðir, bursta tennur kvölds og morgna, ásamt því að nota tannþráð á kvöldin. Reglulegt eftirlit og tannhreinsun hjá tannlækni eða tannfræðing er einnig mikilvægt.


tannskemmdir

Segja má að tannskemmdir stafi af vexti og virkni baktería í munni. Til að bakteríurnar sem eru í munninum geti skaðað yfirborð tannanna, þurfa kjöraðstæður að skapast fyrir þær. Í hvert skipti sem eitthvað matarkyns er sett í munninn lækkar sýrustigið í munninum og hættan á tannskemmdum eykst. Sykur og sæt matvæli eru óskaorkugjafi tannskemmdabakteríanna, en þó ekki sá eini. Allur matur getur valdið tannskemmdum ef bakteríur hafa fengið að þrífast óáreittar.


Hvað er til ráða?

Í munninum er innbyggt varnarkerfi sem hjálpar tönnunum í baráttunni við bakteríurnar.


Þegar tuggið er, hreyfast vöðvarnir sem umlykja munnholið og hjálpa til við hreinsun þess. Við tyggingu eykst einnig munnvatnið og hjálpar það við hreinsun munnholsins, auk þess sem það hækkar sýrustig munnsins og dregur þá úr áreiti frá bakteríunum á tannyfirborðið.


Þetta innbyggða varnarkerfi nægir þó ekki til að halda tannskemmdunum í skefjum. Eigandi tannanna þarf að leggja sitt að mörkum með því að:

  • Stilla millimálanarti í hóf.
  • Lágmarka neyslu sætinda, sætra matvæla og drykkja.
  • Þrífa tennur af nákvæmni að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag.

FYLLINGAR

Plastfyllingar:

Plastfyllingar hafa að mestu leyti leyst amalgamfyllingar af hólmi. Plastfyllingar eru plastefni með íblönduðum fylliefnum sem auka núningsþol þeirra. Þær hafa lit tanna og þykja ákjósanlegar vegna útlitsins. Þær bindast einnig tannvefnum sem dregur úr brothættu.


Postulínsfyllingar:

Gripið er stundum til postulínsfyllinga þegar fylling er mjög stór og á henni hvílir mikið álag. Postulín er sterkara en plast og því eru þessar fyllingar oft endingarbetri.


Amalgam:

Amalgamfyllingar, eða silfurfyllingar,  voru notaðar í tannlækningum áratugum saman. Við hér hjá Krýnu höfum hætt notkun amalgams.

UMHIRÐA TANNA

Segja má að það sé góð regla að bursta tennur tvisvar á dag með flúortannkremi, að morgni eftir morgunverð og að kvöldi áður en farið er að sofa.


Að kvöldi er mikilvægt að allir fletir tannanna séu hreinir, einnig fletirnir milli tanna, sem þarf að hreinsa með öðrum hætti en sjálfum tannburstanum.


Best er að nota tannþráð og millitannabursta til þess.

Share by: