UM OKKUR

STARFSFÓLK

SAGA STOFUNNAR


Áður en starfssemi Krýnu hófst að Grensásvegi 48 störfuðu þar fjórir tannlæknar: Gunnlaugur Þ. Ingvarsson (frá 1974), Halla Sigurjóns (frá 1978), Kristján H. Ingólfsson (frá 1980) og Trausti Sigurðsson (frá 1980). Þessir fjórir tannlæknar unnu til fjölda ára hver á sinni stofu og deildu sameiginlegri aðstöðu. Þegar Gunnlaugur hætti störfum sumarið 1999 tók Elín Sigurgeirsdóttir stofnandi Krýnu við sjúklingum hans.

Halla Sigurjóns lést langt um aldur fram, hinn 31. mars 2002 og tók þá Elín við rekstri stofu hennar. Í mars 2006 keypti Krýna ehf allt húsnæðið á Grensásvegi 48 og rak þar tannlækningastarfssemi til mars 2022.
Halla Sigurjóns, tannlæknir móðir Elínar hafði mikinn metnað fyrir hönd starfsstéttar sinnar og var vakin og sofin um velferð sjúklinga sinna. Hún var kennari við Tannlæknadeild HÍ til fjölda ára og miðlaði af þekkingu sinni sem sérfræðingur í tannfyllingu og forvörnum. Með þetta viðhorf hennar að leiðarljósi er það einlægur vilji okkar sem störfum hjá Krýnu að halda uppi aðalsmerki Höllu Sigurjóns. Minning hennar er og verður okkur hvatning til góðra verka.

Í uppahafi árs 2010 opnaði Krýna vel útbúið tannsmíðaverkstæði.
Í janúar 2011 gerðist Guðrún Stefánsdóttir tannfræðingur meðeigandi að Krýnu enda hafa hún og Elín unnið farsællega saman í um tvo áratugi.

Í byrjun árs 2018 kom Rúnar Vilhjálmsson tannlæknir inn sem meðeigandi Krýnu. Rúnar vann hjá Krýnu frá 2003-2006 en fluttist þá til Noregs. Hann kom aftur til Krýnu haustið 2016 og var mikill fengur í að fá hann aftur til starfa, enda mikill fagmaður.
Um áramótin 2020-2021 keypti Rúnar hlut Guðrúnar sem hafði hætt sem klínískur tannfræðingur en tekið að sér mannauðsmál Krýnu.

Um mitt ár 2018 kom Trausti Sigurðsson tannlæknir sem áður starfaði á Grensásveginum til liðs við Krýnu og í framhaldinu keypti Krýna rekstur tannlæknastofu Trausta.

Sumarið 2021 keypti Krýna rekstur tannlæknastofu Jóns Viðars Arnórssonar, margir af sjúklingum Jóns Viðars sækja nú tannlæknaþjónustu til Krýnu.


Í byrjun árs 2022 dró verulega til tíðinda hjá Krýnu þegar eigendur tóku þá stóru ákvörðun að flytja starfsemina um set. Fyrir valinu varð 5. hæðin í Hreyfilshúsinu sem er um 800 metra frá fyrri staðsetningu.
Fimmtudaginn 16. mars 2022 hófust flutningarnir og byrjuðum við starfsemina á nýjum stað einungis fjórum dögum síðar. Það verður lengi í minnum haft hversu samstillt átakið var meðal allra starfsmanna og maka þeirra sem unnu sleitulaust þessa tæpu viku þar með talið alla helgina. Ótrúleg samstaða frábærs starfsfólks Krýnu!!


Krýna er nú í rúmlega 500 fm glæsilegu rými í Hreyfilshúsinu. Við hönnun rýmisins var leitast við að hafa alla vinnuaðstöðu starfsfólks eins og best gerist á nútímatannlæknastofum. Þægindi og notalegt umhverfi fyrir sjúklinga okkar er í fyrrarúmi. Krýna býr nú yfir 10 meðferðarstofum, stórri fullkominni sótthreinsun og fullbúnu tannsmíðaverkstæði. Krýna fylgist vel með tækniframförum og nýjungum í greininni og endurnýjar og eykur tækjabúnað eftir þörfum svo hægt sé að bjóða upp á fyrsta flokk þjónustu.


Hvað þýðir nafnið Krýna?

Nafnið er komið af sögninni "að krýna" sem hefur tvöfalda merkingu. Að setja krónu á tönn og að setja kórónu á höfuð kóngafólks sem er hugsað að endurspegli gæði og metnað stofunnar.

VILTU NÁNARI UPPLÝSINGAR?

Contact Us

Share by: